Ætli barnsfæðing hljóti ekki að vera næg ástæða til að blogga?:)

Jæja.  Aðvörun fyrir viðkvæma. Það er komið að fæðingarsöguSmile

Það var mikið búið að velta fyrir sér hvaða dag litli prinsinn veldi sér til að koma í heiminn og margir búnir að skrá sig í veðbankann.  Mér leið alveg ótrúlega vel alla meðgönguna og gat gert það sem ég vildi, þegar ég vildi og án grindargliðnunar eða annarra leiðindafylgifiska meðgöngu sem oft vilja verða.  Ég hljóp og hjólaði fram á síðasta dag.  Ég var sett á miðvikudaginn, þ.e. 5. okt og ég fann að það blundaði í mér að mig langaði að hann fæddist á afmæli Sólu, þann 3. eða afmæli Jill, þann 4. en þar sem hann var ekki tilbúinn þá var ég í raun alveg til í að bíða bara því mér leið svo vel og hefði til dæmis fundist dagurinn í dag mjög flottur kennitölulega séð en auðvitað var sama hvaða dag hann veldi sér, sá dagur yrði alltaf sá réttiWink Ég spurði Margréti ljósmóður í mæðraverndinni hvort hún vildi gefa sitt álit um hvenær hann kæmi og hún sagðist þess alla vega nánast fullviss að hann myndi ekki bíða þar til í dag og hafði hún alveg rétt fyrir sér þar.

Ég fann fyrir kvíða þegar leið að fæðingunni, meiri en með hina strákana og held ég að hann hafi stafað af því að ég hafi ekki trúað því að þetta gæti gengið svona vel í fjórða skiptið, að ég væri nú kannski aðeins of kröfuhörð að ætlast til þess.

Á fimmtudaginn, 6. okt, fórum við Steini saman í mæðraskoðun og Steini ákvað svo að taka sér frí í vinnunni og við sögðum í gríni að þá hlyti hann nú bara að mæta þann dag þar sem það hefði verið sami aðdragandi að fæðingum hinna, þ.e. Steini í fríi, við að hafa það huggulegt yfir daginn og svo mættu piltarnir seinni partinn eða um nóttina.  Við fórum þess vegna í búðaleiðangur, á Hlölla og svo í góðan göngutúr með hundana.  Ég fann einhverja smáundirbúningsverki en ekkert meira en hafði verið síðustu tvær vikur eins og hefur verið með alla strákana.

Um fimmleytið fannst mér eins og það væri nú kannski möguleiki á því að eitthvað yrði úr þessu svo ég dreif í að þrífa og fann að þrif eru mjög sniðug á þessum tímapunktiGrin  Húsið var því hreint og fínt þegar Steini kom heim af fundi rúmlega 7.  Við borðuðum og eftir það vildi Steini fara niður á spítala.  Hann var orðinn frekar stressaður enda vanur því að þetta tæki ekki langan tíma hjá konunni sinni og vildi eiga lengri tíma niðri á deild en klukkutímann sem fæðing Aðalsteins tók.  Mér fannst þetta hálfgerð vitleysa en lét þó tilleiðast og við fórum niður á spítala rétt fyrir 8 þegar tengdapabbi kom.  Mjög indæll ljósmóðurnemi, hún Jóna Björk, tók á móti okkur niður frá og ég var svona hálfafsakandi yfir þessu því mér fannst enn óratími í að eitthvað færi að gerast.  Þetta er í fyrsta skipti sem mér bauðst að eiga niðri í Hreiðri og var það mjög indælt.  Eftir smáskoðun fórum við Steini í göngutúr niður í kjallara, í gegnum undirgöngin yfir í aðalbygginguna og upp á efstu hæð þar og aftur til baka.  Þetta gerðum við tvisvar en svo plantaði ég Steina í sjónvarpsherbergi við stigann á Hreiðurshæðinni og hélt svo áfram göngu minni.  Ég fór ca 15 ferðir niður í kjallara og upp aftur og smellti á Steina kossi svo hann vissi að það væri í lagi með mig. Eftir það bað hann mig að vera kannski bara á hæðinniTounge Hríðirnar fóru smá að aukast en mér fannst í raun ekkert að gerast og var því hissa þegar Jóna ljósmóðurnemi bað mig að koma því hún vildi tékka á hjartslætti litla kúts og sagði að þeim fyndist ég orðin ansi fæðingarleg.  Ég rölti svo eftir ganginum og skoðaði myndirnar af storkunum í gólfdúknum og myndir á á veggjunum mér til dægrastyttingar.  Steini var mér samferða stundum en stundum vildi ég frekar bara að hann sæti og læsi blöð og hann hlýddi alltafLoL Ljósmæðurnar kíktu öðru hvoru fram á gang og fylgdust með mér en sátu annars og prjónuðu í setustofunni.  Allt í einu, mér til mikillar undrunar, fór ég að finna rembingsþörf.  Ég fór tvær ferðir í viðbót en sagði þeim svo frá þessu svo við komum okkur inn í fæðingarstofu.  Þar var ég spurð hvernig ég vildi gera þetta og ég ákvað að eiga á fjórum fótum.  10 mínútum síðar eða rúmlega 22:20, var litli dásamlegi böggullinn okkar kominn í heiminn, flottur og fínn.  Ég fékk hann strax í hendurnar og nánast um leið og ég sneri mér við kom fylgjan út.

Eftir myndatökur og gleðitár sögðu Ósk ljósmóðir og Jóna nemi hálfafsakandi að vegna niðurskurðar væru ræstitæknarnir bara til kl. 11 á vakt svo við vorum beðin að fara í fjölskylduherbergið þar sem við ættum að sofa.  10 mínútum eftir fæðingu vorum við því komin á ról og komin í okkar herbergi.

Þar var stúfurinn vigtaður og mældur.  Hann var 3880 gr og 53 cm og höfuðmálið 36 cm svo hann var nánast eins og hinir strákarnir en reyndar með stærsta höfuðmálið og er ég ekki frá því að ég hafi fundið fyrir þessum aukasentimetraGrin

Þegar yndislegu ljósmæðurnar fóru af vaktinni þökkuðum við þeim innilega fyrir og þá var svarið, "Við ættum að þakka ykkur, þetta var svo ótrúlega skemmtilegt.  Við gerðum ekki neitt og hefðum alveg getað tekið prjónana með okkur inn á fæðingarstofu."Grin

Ég náði svo að sofna aðeins upp úr miðnætti en vaknaði eftir tvo tíma og lá svo næstu tímana og grét af gleði yfir þessu kraftaverki.

En nú er best að fara að sinna honum og hinum stúfunum sínum.

Kv.

Mamman hamingjuríka

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíana Ingveldardóttir

Þú ert alveg ótrúleg. Til hamingju með litla prinsinn!

Júlíana Ingveldardóttir, 12.10.2011 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir
Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir
Þriggja barna móðir, eiginkona, hundaeigandi og hlaupari sem finnst lífið skemmtilegt og gott.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 15402

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband