7.9.2010 | 18:47
Dásemdarbörn
Ég var að koma inn úr dyrunum með fjögurra ára drenginn, hann Aðalstein. Hann var að koma úr fyrsta danstímanum með Sigrúnu Björk Sóludóttur. Ég brosi enn allan hringinn, þau voru svooooo mikil krútt, héldust í hendur allan tímann og stóðu sig með stakri prýði, reyndar sjaldnast í takt eða á leið í rétta átt en það er algjört aukaatriði. Í miðjum tímanum kom svo Hallgrímur ásamt nokkrum skólahljómsveitarfélögum sem danskennarinn hafði kennt fyrir nokkrum árum og það skipti ekki neinum togum, þeim var öllum vippað út á gólf til að kenna stubbunum og ég held að sjaldan hafi Aðalsteinn dáðst jafnmikið að stóra bróður
Annars áttum við brúðkaupsafmæli í gær og eigum trúlofunarafmæli í dag og af því tilefni skruppum við út úr bænum á laugardaginn, bara tvö og var það algjörlega himneskt.
Við byrjuðum á Hveragerði, fórum í sundlaugina hjá Heilsuhælinu þar sem við prófuðum víxlböð og fórum svo í gufu og saunu. Það var eins og við værum ein í heiminum því ólíkt öðrum sundlaugum er þessi lítið notuð af öðrum en fólki á hælinu og akkúrat á þessum tíma voru held ég tveir aðrir en við í henni.
Svo fórum við á hverasvæðið í Hveragerði sem er orðið rosalega flott og snyrtilegt.
Eftir það kíktum við á Urriðafoss sem er eins og alþjóð veit vatnsmesti foss landsins (ég sem sagt komst að því um helgina, hélt alltaf að það væri Dettifoss) og var það mjög skemmtilegt.
Við gistum svo á Hestheimum sem er svona sveitahótel rétt hjá Hellu og ég mæli þvílíkt með því. Rosalega kósí og heimilislegt, fín herbergi og dásamlegur morgunmatur með fullt af heimabakstri og fíneríi.
Við borðuðum á Hótel Rangá sem er nú pínu hype finnst mér því það var dýrt þar og ekkert rosalega góður matur. Við vorum bara á gallabuxum og bol og fengum smálúkk frá þjónum enda allir aðrir í súperfínum fötum þarna.
Ég fékk mér humarsúpu með tveimur smábitum af humri og var súpan allt í lagi nema hvað að hún bragðaðist eins og eitthvað allt annað en humarsúpa. Steini fékk sér folald sem var fínt. Í aðalrétt fékk ég ágætan kjúkling en Steini fisk sem átti að vera smálúða en ef þetta var smálúða er ég amma mín. Þegar uppskafni þjónninn tók svo af borðinu og bauð okkur meira sagði Steini bara að við ætluðum frekar á Hellu að fá okkur bland í poka, nema bland í poka væri til á Rangá. Vesalings þjónninn vissi ekkert hvernig hann ætti að vera en ég fékk algjört hláturskast.
Fyndnasta atriði kvöldsins fannst mér þó aumingja maðurinn á næsta borði. Á matseðlinum var surf and turf réttur þar sem í boði var lamb og humar á 6500 kr en ef þú slepptir humrinum kostaði rétturinn 5000 kr. Maðurinn pantaði þetta og þegar rétturinn kom á borðið var enginn humar. Hann minntist á þetta og þjónninn skottaðist inn í eldhús og kom til baka með disk með einum pínulitlum humarhala. Þetta var sem sagt 1500 kr humarinn
Við fórum svo snemma að sofa og komum okkur svo í fína morgunmatinn áður en við fórum í reiðtúr um sveitina og eftir úttékk fórum við á dásamlegan stað, Hrunalaug við Flúðir, sem er náttúrulaug lengst út í rassgati og var yndislegt að liggja þar í smátíma áður en við brunuðum í bæinn.
Sem sagt frábær Knipplingaafmælisferð.
Kv.
Ásta knipplingur
P.S. Hér áttu að vera myndir en tölvan neitar að setja inn myndir sökum plássleysis á diski.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 15402
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þvílíkt næs ferð hjá ykkur :)
hvala (IP-tala skráð) 15.9.2010 kl. 18:44
Já, þetta var algjör snilld.
Ásta (IP-tala skráð) 16.9.2010 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.