Laugavegurinn 2010, klúbburinn skynsemin ræður:)

Tveimur dögum eftir 5 tinda hlaupið í byrjun júní var hringt í mig og ég beðin að gefa blóð.  Ég hlýði auðvitað alltaf því sem mér er sagt og hjólaði því niður eftir en fór svo að hugsa þegar þangað kom hvort blóðmissir sem ég varð fyrir í vor gæti haft neikvæð áhrif á blóðgjöfina.  Í ljós kom þegar ég fyllti út eyðublaðið að ég mátti ekki gefa en þar sem ég var nú komin á staðinn og einhver þurfti blóðið mitt ákvað ég aðeins að sleppa því að svara einni spurningu á blaðinu og gaf svo blóð. 

Daginn eftir fórum við Sigrún og Vala í minningarhlaup upp í Mosfellsdal og leið mér ágætlega fyrri hluta hlaupsins en gjörsamlega hræðilega eftir það.  Þegar heim kom dróst ég upp tröppurnar, svimaði, var flökurt, gat ekki borðað og var algjörlega máttlaus.  Hallgrímur leit á mig, sagði:"Þú lítur ömurlega út, þú ferð ekki að hlaupa á morgun!"  Ég hlýddi því auðvitað ekki og var eins og drusla á æfingu daginn eftir.  Gullspretturinn var þremur dögum síðar og þar sem okkur vantaði langa æfingu inn í vikuna ákváðum við Agga að taka hana á fimmtudeginum.  Það er skemmst frá því að segja að ég var eins og aumingi á þeirri æfingu og man sjaldan eftir að hafa liðið eins illa, hver einasti hóll varð að Mount Everest, mér var illt í maganum og sviminn varð meiri og meiri.  Þegar heim kom var ég eins og argasta drusla.  Ég fékk svo bréf frá Landspítalanum þar sem stóð að áður en ég gaf hefðu blóðbirgðir verið undir eðlilegum mörkum og járnbirgðir rétt undir helmingi þess sem þær þurfa að vera til að mega gefa.  Ég var því nánast járnlaus þarna.  Nú voru góð ráð dýr.  Ég var búin að vera dugleg að æfa, vantaði að vísu sprettæfingar, en æfingamagn og æfingategundir voru með besta móti.  Ég fór þá að dæla í mig járni og járnríkum matvörum og vonaði að formið sem ég var komin í fyrir hálfvitaganginn myndi fleyta mér eitthvað áfram. 

Næstu tvær vikur eftir þetta leið mér alveg hrikalega illa á hlaupum en fann þó að járnið hafði góð áhrif.  Í Þorvaldsdalnum leið mér bara nokkuð vel og sá þá að ég hlyti að geta hlaupið Laugaveginn þótt það yrði ekki alveg með sömu formerkjum og ég hafði ætlað mér, þ.e. bætingu. Síðasta fimmtudag var ég líka sérlega sniðug því ég rak fótinn í tripp trapp stól Aðalsteins og braut á mér tána.  Mér var því eiginlega hætt að lítast á blikuna en vildi ekki hætta við.

Ég ákvað því að í fyrsta skipti á ævinni myndi Ásta litla vera skynsöm (var það reyndar í Þorvaldsdalnum líka) og hlaupa eftir líðan.

Sagan öll:

Agga sótti mig kl 4:00 í gærmorgun og þá var ég búin að borða beyglu með sultu og drekka sopa af Energy Boost með.  Við fórum svo með rútunni kl. 4:30 og borðuðum svo morgunmat í Hrauneyjum, vorum báðar með sultusamloku og ég fékk mér svo banana og Trópí.  Ég hafði verið mjög passasöm með mataræði daginn áður því með alla mína magaverkjasögu í hlaupum langaði mig svooo mikið að vera með magann í góðu standi. Það var kalt og hvasst í Hrauneyjum en í Landmannalaugum var fínasta veður.  Við bárum á okkur sólarvörn og vaselín og hituðum aðeins upp áður en við komum okkur fyrir í startinu. Ég hafði sett lakari tíma inn sem markmið og fékk því ekki að starta með stelpunum sem var örlítið fúlt en ég vissi að ég hlypi hvort eð er ein allan tímann og var ekkert að svekkja mig á því.  Keli og Gígja voru að vinna við hlaupið og það var gott að fá knús frá Kela áður en ég lagði af stað og annan frá Ingu Dagmar sem var á hlaupum í kringum hlauparana.

090

Með grímuna sem við fengum vegna öskufallsins.  Við Agga vorum í kasti yfir þessu.  Fólk hafði meira að segja keypt sér sundgleraugu til að verja augun en við gátum ómögulega séð fólk hlaupa 53 km svona.

096

Team Vala með Völu í fararbroddi, tilbúnar að leggja í hann.

091

Baldur og Einar að bera hvor á annan.  Þeir höfðu það á orði að það væri miklu betra að bera á karlmenn, svo loðið og mjúkt.

094

Svava Rán og Lady Sigrún ready to go.

Jæja, flautað var til leiks og við hlupum af stað.  Bibba kallaði hvatningarorð ofan úr hrauninu, galaði "það er lítið eftir", á alla sem komu fram hjá (vorum búin með ca 100 m) og ég hló að þessu alveg gegnum hraunið.

Ég ákvað að taka kaflann að Álftavatni mjög skynsamlega svo ég lenti ekki í magaveseni eins og síðast á söndunum, eða þróttleysi og tásuverkjum.  Það var erfitt að hemja sig upp að Hrafntinnuskeri því ég fann að ég hafði næga orku og átti erfitt með að fara ekki að sperra mig ef einhver fór fram úr.  Það tókst og ég kom að Hrafntinnuskeri á 1:20 sem er ca 5 mínútum lakari tími en síðast sem var fínt.  Ég fékk mér banana og vatn á drykkjarstöðinni og hélt svo áfram.  Í hólunum eftir Hrafntinnusker fór ég að fá mikla verki í tána auk verkja í hnénu sem hafa verið að trufla mig í vor.  Táin var ekki alveg að samþykkja svona hæðarbreytingar enda mikið álag á hana bæði upp og niður brekkurnar.  Verkurinn náði undir alla ilina en mér var alveg sama því maginn var í lagi og þá var allt í lagi.

Þegar ég var að koma að Álftavatni leið mér enn mjög vel í maganum en fann þó að sniðugt væri kannski að skreppa á klósettið þar.  Á veginum að Álftavatni fann ég að járnleysið og æfingaleysið síðasta mánuðinn hafði þau áhrif að ég fór hægt yfir, var á tempói rétt undir 6:00 en lét það ekkert á mig fá.  Ég fékk mér svo tvo banana við Álftavatn og vatnsglas og dreif mig á klósettið og þurfti að bíða heillengi eftir að komast að svo ég komst ekki aftur af stað frá Álftavatni fyrr en tíminn sagði 2:49 en það varð bara að hafa það.

Við Bláfjallakvísl náði ég í MP3 spilarann, fékk mér bita af hnetustykki (Solla Eiríks), drakk eins og vitlaus manneskja, bar á mig sólarvörn, henti af mér Team Vala treyjunni og dreif mig af stað.  Á söndunum leið mér alveg ótrúlega vel í maganum og var það skemmtileg tilbreyting.  Ég var þó með mikla verki í tánni og undir ilinni út frá því og í hnénu og ákvað því að taka sénsinn og fá mér íbúfentöfluna sem ég var með.  Ég vissi að þetta var áhætta því maginn gæti farið í klessu en mér hafði liðið svo vel að ég hætti á það.  Það borgaði sig, verkirnir minnkuðu og mér leið vel.  Ég var á 5:00 tempói á tímabili og söng hástöfum með mínum háþróaða lagalista sem samanstóð af Disneylögum, Latabæ, Bon Jovi, Á móti sól, Hemma Gunn og ýmsu öðru dásamlega skemmtilegu. Við Hattfell hljóp ég fram á Kára og söng fyrir hann en uppskar ekki mikið þakklæti. Þegar kom að brekkunni niður að Emstrum komst ég í þvílíkt stuð að hlusta á "Einn dans við mig" með Hemma að ég flaug niður að skálanum, framhjá haug af fólki. Þarna var tíminn hjá mér 4:30 svo ég vissi að ef ég héldi vel á spilunum gæti ég bætt tímann en enn var langt eftir.

Ég passaði að drekka vel enda skein sólin eins og henni væri borgað fyrir það og ég vildi ekki lenda í krömpum. Við Emstrur fékk ég mér aftur banana, lítinn bita af mars og vatn og hélt svo áfram.  Alltaf þegar ég fann að orkuleysi var farið að segja aðeins til sín, fékk ég mér bita af hnetustykkinu og Energy Boost.

Síðasta kaflann að Kápunni fór ég mjög hægt og þarna held ég að járn og æfingaleysi hafi sagt verulega til sín og eftir að hafa verið samferða stelpu sem hét Sigrún frá Emstrum varð ég að segja skilið við hana og fara aðeins hægar. Þarna var alveg himnasending að sjá Lísu sem kallaði til manns hvatningarorð og stuttu seinna Börk sem ég bara varð að knúsaSmile  Ég kláraði úr öllum brúsunum mínum á no time og var orðin alveg orkulaus við Ljósá.  Þar var bara til hvítt powerade sem ég get ekki drukkið svo í staðinn fékk ég flatt kók og lítinn marsbita.   Það var dásamlegt að sjá Þröngána og niðurleiðin að henni var ótrúlega auðveld og það lítur út fyrir að henni hafi verið breytt eitthvað síðan síðast.  Þarna fór ég að fara fram úr ansi mörgum sem voru stopp vegna krampa og gaf ég þeim magnesíumtöflurnar mínar.  Ég var líka mikið í ruslaupptíningum alla leið því skipuleggjendur hlaupsins höfðu lagt mikla áherslu á að enginn skildi eftir rusl og tók ég því á mig að taka upp gelbréf og ýmislegt annað sem fólk hafði misstWink 

Eftir Þröngána var eftirleikurinn auðveldur því maður er eins og hestarnir sem eygja leiðina heim og er orðinn svo ánægður að vera loks að komast á leiðarenda að það gefur manni aukaboost upp brekkurnar. 

Ég kom því í mark á 6:53 sem er 14 mínútum lakari tími en ég átti en ég verð að segja að það var þess virði.  Mér leið ótrúlega vel í maganum alla leið og ég held ég sé búin að finna út lausn á magavandanum, fyrst ég get ekki tekið gel er bara lykillinn að láta orkuna aldrei þverra.

Það var yndislegt að hendast í fangið á Gígju sem stóð í markinu og fá svo elsku Jóhönnu til að hugsa um mann í tjaldinu enda höfðum við Agga einmitt saknað þess mikið að hafa ekki Ívar og Jóhönnu og fullt af öðrum Laugaskokkurum í hlaupinu.

Stelpurnar stóðu sig auðvitað fáránlega vel og bættu sig allar.  Vala bætti Íslandsmetið og sjálfa sig um 5 mínútur, var á 5:28 sem er auðvitað ómennskur tími, en náði ekki að sigra þar sem Helen Ólafs náði í mark á 5:21 og það er ekki einu sinni hægt að vera pirraður við hana því hún er svo yndisleg þótt maður haldi nú alltaf með sínu liðiSmile

Agga bætti sig um rúmar 20 mínútur, var á 5:53 og fjórða kona í mark.  Sigrún bætti sig um ca klukkutíma og kom á 6:09 í mark sem er alveg fáránleg bæting!

Laugaskokkarar og Árbæjarskokkarar stóðu sig yfirleitt rosalega vel en margir keppendur lentu í miklu magaveseni og alls kyns krömpum, mikið til út af hitanum og sólinni og aldrei hafa jafnmargir hætt á Laugaveginum áður. 

Mér leið svo vel að eftir sturtu var ég bara orðin svöng og át grillmatinn hans Kela með bestu lyst á meðan aðrar Glennur voru ekki alveg eins lystugar og sumar hafi skilið matarleifar eftir um allar jarðir á heimleiðinniLoL

097

Team Vala og Vala eða öllu heldur Glennurnar án Sólu. Frekar greinilegt að ég kom á eftir þeim í mark enda frekar litlaus í framan enn.

104

Efstu sætin hjá konunum, Sif Jóns í 3. sæti, Helen Ólafs í 1. sæti og Vala í 2. sæti.

105

Horft yfir Eyjafjallajökul frá Húsadal, rosalegt öskuský yfir sem náði þó ekki inn í Húsadalinn svo við fundum í raun aldrei fyrir neinu.

Agga fór svo úr rútunni á Hvolsvelli og restina af leiðinni sat ég og kjaftaði við Geir úr Valur skokk sem var að hlaupa sinn fyrsta Laugaveg og stóð sig svakalega vel, var rétt á undan Sigrúnu í mark. 

Þetta var gjörsamlega stórkostlegt hlaup og hlakka ég til þess næsta og ætla að gera það nákvæmlega eins en vonast til að vera þá full af járni og óbrotin og geta þá bætt tímann minn. Það sem upp úr stendur er því góð líðan, frábær árangur fólksins í kringum mig og síðast en ekki síst gífurlegt þakklæti til þeirra sem hjálpuðu manni fyrir og eftir hlaup og á meðan því stóð, það er ómetanlegt að hafa svona gott fólk í kringum þetta.

Kv.

Ásta Laugó


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til lukku hetjan mín

Sé þig etv á eftir

Inga (IP-tala skráð) 18.7.2010 kl. 10:57

2 identicon

Frábært hlaup hjá þér!

Heiða (IP-tala skráð) 18.7.2010 kl. 14:37

3 identicon

Þetta var alveg frábært hjá þér og þú ert alveg ótrúleg að hafa klárað þetta og líka svona flott. Lýst vel á þessa skynsemisstefnu og vonandi verður táin fljót að jafna sig.

Bogga (IP-tala skráð) 18.7.2010 kl. 19:04

4 Smámynd: Agga

Til hamingju aftur með flott hlaup snillingur, þetta var nákvæmlega eins og þú áttir að taka það miðað við aðstæður! Loksins ferðu eftir fyrirmælum

En haha, að sjálfsögðu tíndir þú upp allt ruslið eftir hina

Agga, 18.7.2010 kl. 22:34

5 identicon

er þetta lengsta blogg í heimi?

Kallinn (IP-tala skráð) 19.7.2010 kl. 02:22

6 identicon

Til hamingju mín kæra, glæsilegur árangur ;0) Var rosagaman að taka þátt í þessu með ykkur Öggu, öllum hinum flottu hlaupurunum og öllu frábæra starfsfólkinu sem starfar í kringum hlaupið. Líst afskaplega vel á nýju, skynsömu Ástu ... ef hægt er að tala um slíkt þegar maður hleypur 55 km ultamaraþon tábrotin ;0)

Gígja (IP-tala skráð) 19.7.2010 kl. 19:25

7 identicon

Þetta var ekkert smá flott hjá þér stelpa mín! og þú komst flott í mark og varst ótrúlega fljót að jafna þig.

Ekki spurning ég kem með næst og við verðum í æðislegu formi og bætum okkur feitt.

Jóhanna (IP-tala skráð) 19.7.2010 kl. 21:58

8 identicon

þú ert ótrúlega DUGLEG!!! :)

frábært hjá þér en kannski ekki alveg það alskynsamlegasta sem þú hefur gert hahahah tábrotin með járnskort,best að skella sér í skemmtiskokk :D

Linda Björk (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 21:21

9 Smámynd: Sveinbjörg M.

Vá, þvílík saga! Innilega til hamingju með þennan flotta árangur flotta kona með brotna tá og járnskort!! Alveg ertu ótrúleg og mikill hörkunagli!

Sveinbjörg M., 21.7.2010 kl. 16:41

10 identicon

Gott og ítarlegt blogg enda Laugavegurinn ansi langur! Glæsileg frammistaða og mikið er ég glöð að heyra að magavandamálið sé leyst!

Sóla (IP-tala skráð) 22.7.2010 kl. 10:35

11 Smámynd: Júlíana Ingveldardóttir

Ég hló upphátt þegar ég las að þú hafir verið að tína upp rusl þarna! Hverjum öðrum en þér myndi detta þetta í hug í keppnishlaupi haha! Til hamingju með þetta, you neat freak

Júlíana Ingveldardóttir, 22.7.2010 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir
Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir
Þriggja barna móðir, eiginkona, hundaeigandi og hlaupari sem finnst lífið skemmtilegt og gott.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 15402

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband