Ætli barnsfæðing hljóti ekki að vera næg ástæða til að blogga?:)

Jæja.  Aðvörun fyrir viðkvæma. Það er komið að fæðingarsöguSmile

Það var mikið búið að velta fyrir sér hvaða dag litli prinsinn veldi sér til að koma í heiminn og margir búnir að skrá sig í veðbankann.  Mér leið alveg ótrúlega vel alla meðgönguna og gat gert það sem ég vildi, þegar ég vildi og án grindargliðnunar eða annarra leiðindafylgifiska meðgöngu sem oft vilja verða.  Ég hljóp og hjólaði fram á síðasta dag.  Ég var sett á miðvikudaginn, þ.e. 5. okt og ég fann að það blundaði í mér að mig langaði að hann fæddist á afmæli Sólu, þann 3. eða afmæli Jill, þann 4. en þar sem hann var ekki tilbúinn þá var ég í raun alveg til í að bíða bara því mér leið svo vel og hefði til dæmis fundist dagurinn í dag mjög flottur kennitölulega séð en auðvitað var sama hvaða dag hann veldi sér, sá dagur yrði alltaf sá réttiWink Ég spurði Margréti ljósmóður í mæðraverndinni hvort hún vildi gefa sitt álit um hvenær hann kæmi og hún sagðist þess alla vega nánast fullviss að hann myndi ekki bíða þar til í dag og hafði hún alveg rétt fyrir sér þar.

Ég fann fyrir kvíða þegar leið að fæðingunni, meiri en með hina strákana og held ég að hann hafi stafað af því að ég hafi ekki trúað því að þetta gæti gengið svona vel í fjórða skiptið, að ég væri nú kannski aðeins of kröfuhörð að ætlast til þess.

Á fimmtudaginn, 6. okt, fórum við Steini saman í mæðraskoðun og Steini ákvað svo að taka sér frí í vinnunni og við sögðum í gríni að þá hlyti hann nú bara að mæta þann dag þar sem það hefði verið sami aðdragandi að fæðingum hinna, þ.e. Steini í fríi, við að hafa það huggulegt yfir daginn og svo mættu piltarnir seinni partinn eða um nóttina.  Við fórum þess vegna í búðaleiðangur, á Hlölla og svo í góðan göngutúr með hundana.  Ég fann einhverja smáundirbúningsverki en ekkert meira en hafði verið síðustu tvær vikur eins og hefur verið með alla strákana.

Um fimmleytið fannst mér eins og það væri nú kannski möguleiki á því að eitthvað yrði úr þessu svo ég dreif í að þrífa og fann að þrif eru mjög sniðug á þessum tímapunktiGrin  Húsið var því hreint og fínt þegar Steini kom heim af fundi rúmlega 7.  Við borðuðum og eftir það vildi Steini fara niður á spítala.  Hann var orðinn frekar stressaður enda vanur því að þetta tæki ekki langan tíma hjá konunni sinni og vildi eiga lengri tíma niðri á deild en klukkutímann sem fæðing Aðalsteins tók.  Mér fannst þetta hálfgerð vitleysa en lét þó tilleiðast og við fórum niður á spítala rétt fyrir 8 þegar tengdapabbi kom.  Mjög indæll ljósmóðurnemi, hún Jóna Björk, tók á móti okkur niður frá og ég var svona hálfafsakandi yfir þessu því mér fannst enn óratími í að eitthvað færi að gerast.  Þetta er í fyrsta skipti sem mér bauðst að eiga niðri í Hreiðri og var það mjög indælt.  Eftir smáskoðun fórum við Steini í göngutúr niður í kjallara, í gegnum undirgöngin yfir í aðalbygginguna og upp á efstu hæð þar og aftur til baka.  Þetta gerðum við tvisvar en svo plantaði ég Steina í sjónvarpsherbergi við stigann á Hreiðurshæðinni og hélt svo áfram göngu minni.  Ég fór ca 15 ferðir niður í kjallara og upp aftur og smellti á Steina kossi svo hann vissi að það væri í lagi með mig. Eftir það bað hann mig að vera kannski bara á hæðinniTounge Hríðirnar fóru smá að aukast en mér fannst í raun ekkert að gerast og var því hissa þegar Jóna ljósmóðurnemi bað mig að koma því hún vildi tékka á hjartslætti litla kúts og sagði að þeim fyndist ég orðin ansi fæðingarleg.  Ég rölti svo eftir ganginum og skoðaði myndirnar af storkunum í gólfdúknum og myndir á á veggjunum mér til dægrastyttingar.  Steini var mér samferða stundum en stundum vildi ég frekar bara að hann sæti og læsi blöð og hann hlýddi alltafLoL Ljósmæðurnar kíktu öðru hvoru fram á gang og fylgdust með mér en sátu annars og prjónuðu í setustofunni.  Allt í einu, mér til mikillar undrunar, fór ég að finna rembingsþörf.  Ég fór tvær ferðir í viðbót en sagði þeim svo frá þessu svo við komum okkur inn í fæðingarstofu.  Þar var ég spurð hvernig ég vildi gera þetta og ég ákvað að eiga á fjórum fótum.  10 mínútum síðar eða rúmlega 22:20, var litli dásamlegi böggullinn okkar kominn í heiminn, flottur og fínn.  Ég fékk hann strax í hendurnar og nánast um leið og ég sneri mér við kom fylgjan út.

Eftir myndatökur og gleðitár sögðu Ósk ljósmóðir og Jóna nemi hálfafsakandi að vegna niðurskurðar væru ræstitæknarnir bara til kl. 11 á vakt svo við vorum beðin að fara í fjölskylduherbergið þar sem við ættum að sofa.  10 mínútum eftir fæðingu vorum við því komin á ról og komin í okkar herbergi.

Þar var stúfurinn vigtaður og mældur.  Hann var 3880 gr og 53 cm og höfuðmálið 36 cm svo hann var nánast eins og hinir strákarnir en reyndar með stærsta höfuðmálið og er ég ekki frá því að ég hafi fundið fyrir þessum aukasentimetraGrin

Þegar yndislegu ljósmæðurnar fóru af vaktinni þökkuðum við þeim innilega fyrir og þá var svarið, "Við ættum að þakka ykkur, þetta var svo ótrúlega skemmtilegt.  Við gerðum ekki neitt og hefðum alveg getað tekið prjónana með okkur inn á fæðingarstofu."Grin

Ég náði svo að sofna aðeins upp úr miðnætti en vaknaði eftir tvo tíma og lá svo næstu tímana og grét af gleði yfir þessu kraftaverki.

En nú er best að fara að sinna honum og hinum stúfunum sínum.

Kv.

Mamman hamingjuríka

 


Annarlok

Já, það hefur verið frekar mikið stress þessa síðustu daga við að klára allt sem þarf að klára áður en önninni lýkur.  Nú sit ég á bráðskemmtilegum bóknámsfundi þar sem fínar veitingar eru bornar fram að minni beiðni í boði Guðrúnar kennslustjóra, húrra fyrir henni.  Annars þyrfti ég helst að vera að semja próf í stað þess að vera hér á fundi en svona er lífið.

Þar sem elsku besti kennslustjórinn okkar er með kveikt á tölvupóstinum sínum hér uppi á skjá sá ég mig knúna til að senda henni póst með eftirfarandi efni svo fólk sæi þetta á meðan verið var að halda fyrirlestur hér uppi á töflu:

Hér er sóðalega klámmyndin sem þú baðst um:)

Mér fannst þetta sérlega fyndið:)

Annars er þetta blessaða stjórnlagaþing á morgun.  Ég er nú ekkert sérlega áhugasöm um þetta en mun að sjálfsögðu kjósa og set Sveinu vinkonu efst á lista, svo endilega setjið Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur á ykkar blað, hún er dugleg, áreiðanleg og eldklár.

Best að snúa sér aftur að fundinum áhugaverða.

Kv.

Ásta


Hrekkjavaka og fleira skemmtilegt

Ákveðið var að halda hrekkjavökuna hátíðlega annað árið í röð hér á þessum bæ.  Í fyrra vorum við með smáveislu í sumarbústað en nú fengu strákarnir að bjóða bestu vinunum og halda veisluna heima.

Helgin fór því mikið til í undirbúning auk þess sem ég reyndi að koma að smáritgerðayfirferð, fótboltamóti í Keflavík, konukvöldi hjá Höllu Karen og mömmuklúbbi hjá Berglindi íslensku.

Þetta gekk svona líka glimrandi vel, konukvöldið var æði, ég uppgötvaði þegar ég sótti Sólu og hún var með Michael Jackson hár og hatt að þetta átti að vera hattakvöld svo ég dreif mig heim og náði mér í hjólahjálm af Hallgrími sem smellpassaði við rauðan, fleginn kjól sem ég var í:) Svo átum við Sushi og súkkulaðikökur eins og við gátum í okkur látið og svo drifum við Síams okkur heim svo við gætum vaknað snemma til að hlaupa og fara í tabata.

Eftir bráðskemmtilegt hlaup og Tabata með Sólu, Gullu og Mundu fórum við á fótboltamót í Keflavík þar sem Benedikt og vinir hans stóðu sig rosalega vel og enduðu í 2. sæti. enda með dásamlegan þjálfara og með eindemum duglegir strákar.

Ég sleppti svo haustfagnaði hjá Laugaskokki þótt mig langaði mikið að fara en fannst ansi langt að keyra út á Seltjarnarnes í ljósi þess að ég ætlaði bara að kíkja í klukkutíma en við Sóla lofuðum hvorri annarri því að á næstu Laugaskokkssamkundu myndum við mæta, hvað sem tautaði eða raulaði.

Á sunnudagsmorguninn var þessi fíni mömmuklúbbur þar sem við átum á okkur gat og slúðruðum eins og enginn væri morgundagurinn og svo var það heim að ljúka undirbúningi áður en krakkarnir 18 mættu á staðinn.

Krakkarnir voru rosalega flottir, í þvílíkt flottum búningum, keyptum sem heimatilbúnum.  Við fórum svo í nokkra leiki, borðuðum alls kyns ógeðsmat og horfðum á Halloween Simpsons.  Svo fóru allir heim saddir og sælir, nema Sigrún Björk vinkona mín sem skildi ekki alveg val á besta búningi en allir kusu hver þeim fyndist flottastur og úrslitin urðu pínuneyðarleg þar sem ég þurfti að tilkynna að Benedikt hefði unnið en hann var í búningi sem ég hafði gert, var málaður og greiddur af mér og leit alveg eins út og Aðalsteinn en svona er þetta.  En Sigrúnu fannst auðvitað hróplegt óréttlæti að mér fyndist Benedikt flottastur en ekki hún í prinsessukjólnum sem var auðvitað rosalega flottur.  Á næsta ári verða sem sagt annaðhvort engin búningaverðlaun eða verðlaun fyrir alla:)

Veit ekki með þessi myndamál hérna, get engar myndir sett.  Rembist þó eins og rjúpan við staurinn.

Kv.

Ásta 


Sko stúlkuna, hún gat bloggað:)

Jæja, mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég bloggaði síðast og ég hef marga fjöruna sopið en hef þó ekki í hyggju að leggja árar í bát og mun nú blogga eins og ég eigi lífið að leysa enda enginn landkrabbi í þeim málunum.

Byrjum í dag og förum aftur á bak.

Við Steini ákváðum að fara með strákana okkar í brunch í Turninum í dag og var það alveg hreint himneskt.  Við átum okkur svo mikið til óbóta að við Hallgrímur áttum erfitt með andardrátt á leiðinni út og Hallgrímur sagðist ekki vilja borða næstu tvær vikurnar en ég er ekki viss um að það endist lengur en svona klukkutíma í viðbót:)  Það var frekar fyndið að á borðunum sitt hvorum megin við okkur voru fjölskyldur með börnin sín og þar voru á báðum borðum strákar úr liði Benedikts í fótboltanum, alveg óvart.  Við stungum því upp á því að það yrði tekinn upp HK afsláttur á staðnum en veit ekki hvernig yrði tekið í það.  Á staðnum var líka Stella fyrrum nemandi að vinna sem þjónaði okkur með stakri prýði og ekki var nú leiðinlegt að heyra að hún væri komin í ensku í háskólanum af því hún hefði verið svo ánægð með okkur, það gladdi litla kennslukonuhjartað.

Í gær fórum við Hallgrímur með mömmu og forsetahjónunum á tónleika í Víðistaðakirkju til styrktar MND félaginu og voru þeir alveg svakalega góðir.  Ég var með smááhyggjur af því að Hallgrímur skemmti sér ekkert of vel þar sem þetta voru stórsöngvarar á borð við Kristján Jóhanns, Gissur Pál og fleiri en honum fannst þetta bara bráðskemmtilegt og naut klassísku tónlistarinnar mjög vel. Á meðan voru Benedikt og Aðalsteinn á Töfraflautunni með Kristjáni bróður og Laufeyju frænku svo þetta var mikil menningarhelgi.  Á meðan sat litli skóladrengurinn Steini heima og lærði fyrir próf.

Síðasta vika hefur svo snúist töluvert um Snælandsskóla því það var bekkjarkvöld hjá Hallgrími á föstudag en þá fengum við fólk frá búðinni Spilavinum í heimsókn og kenndu þau fólkinu fullt af skemmtilegum spilum og mæli ég innilega með svona stund.  Á miðvikudaginn var bingókvöld hjá Benediktsbekk og það var auðvitað líka stuð.

Þar sem ég hef ekkert bloggað um Torontoferðina enn og Sóla og Guðrún búnar að gera henni góð skil, ætla ég held ég bara að sleppa því að öðru leyti en því að segja að þetta var ótrúleg snilld.´

Svo átti að vera hér smámyndaröð en bloggið leyfir mér ekki að setja neina mynd, eitthvað plássrugl, sjáum hvað setur.

Kv.

Ásta Lauf


Sjúklega stutt í Kanada

Jamms, það verður mjög gaman að fara til Kanada með skólanum.  Milli skólaheimsókna og funda ætti að gefast nægur tími til innkaupaferða, áts, hlaupa og annars skemmtilegs. Það verður huggulegt að deila aftur herbergi með Sólu sinni, orðið langt síðan síðast.  Væntanlega verða nú tvö rúm í þessu herbergi en ekki eitt eins og í Berlín um árið þegar ég áreitti hana kynferðislega í svefni, komin 7 mánuði á leið.Grin

Blikar Íslandsmeistarar, það minnkar nú ekki montið í þeim. Samt frábært að nýtt lið hafi náð titlinum og ekki skemmir fyrir það það sé Kópavogslið, við komumst svo bara upp næsta sumar og náum Íslandsmeistaratitlinum eftir tvö ár, má alltaf vonaWink

Svo erum við bara í massastuði, allt komið á fullt í skólum og íþróttum, held að fjölskyldan fari samtals á 30 æfingar á viku, ágætisárangur.

Kv.

Ásta Kanadamær


Dásemdarbörn

Ég var að koma inn úr dyrunum með fjögurra ára drenginn, hann Aðalstein.  Hann var að koma úr fyrsta danstímanum með Sigrúnu Björk Sóludóttur.  Ég brosi enn allan hringinn, þau voru svooooo mikil krútt, héldust í hendur allan tímann og stóðu sig með stakri prýði, reyndar sjaldnast í takt eða á leið í rétta átt en það er algjört aukaatriði.  Í miðjum tímanum kom svo Hallgrímur ásamt nokkrum skólahljómsveitarfélögum sem danskennarinn hafði kennt fyrir nokkrum árum og það skipti ekki neinum togum, þeim var öllum vippað út á gólf til að kenna stubbunum og ég held að sjaldan hafi Aðalsteinn dáðst jafnmikið að stóra bróðurSmile

Annars áttum við brúðkaupsafmæli í gær og eigum trúlofunarafmæli í dag og af því tilefni skruppum við út úr bænum á laugardaginn, bara tvö og var það algjörlega himneskt.

Við byrjuðum á Hveragerði, fórum í sundlaugina hjá Heilsuhælinu þar sem við prófuðum víxlböð og fórum svo í gufu og saunu.  Það var eins og við værum ein í heiminum því ólíkt öðrum sundlaugum er þessi lítið notuð af öðrum en fólki á hælinu og akkúrat á þessum tíma voru held ég tveir aðrir en við í henni.

Svo fórum við á hverasvæðið í Hveragerði sem er orðið rosalega flott og snyrtilegt.

Eftir það kíktum við á Urriðafoss sem er eins og alþjóð veit vatnsmesti foss landsins (ég sem sagt komst að því um helgina, hélt alltaf að það væri Dettifoss) og var það mjög skemmtilegt.

Við gistum svo á Hestheimum sem er svona sveitahótel rétt hjá Hellu og ég mæli þvílíkt með því.  Rosalega kósí og heimilislegt, fín herbergi og dásamlegur morgunmatur með fullt af heimabakstri og fíneríi.

Við borðuðum á Hótel Rangá sem er nú pínu hype finnst mér því það var dýrt þar og ekkert rosalega góður matur. Við vorum bara á gallabuxum og bol og fengum smálúkk frá þjónum enda allir aðrir í súperfínum fötum þarna.

Ég fékk mér humarsúpu með tveimur smábitum af humri og var súpan allt í lagi nema hvað að hún bragðaðist eins og eitthvað allt annað en humarsúpa. Steini fékk sér folald sem var fínt.  Í aðalrétt fékk ég ágætan kjúkling en Steini fisk sem átti að vera smálúða en ef þetta var smálúða er ég amma mín.  Þegar uppskafni þjónninn tók svo af borðinu og bauð okkur meira sagði Steini bara að við ætluðum frekar á Hellu að fá okkur bland í poka, nema bland í poka væri til á Rangá.  Vesalings þjónninn vissi ekkert hvernig hann ætti að vera en ég fékk algjört hláturskast.

Fyndnasta atriði kvöldsins fannst mér þó aumingja maðurinn á næsta borði.  Á matseðlinum var surf and turf réttur þar sem í boði var lamb og humar á 6500 kr en ef þú slepptir humrinum kostaði rétturinn 5000 kr.  Maðurinn pantaði þetta og þegar rétturinn kom á borðið var enginn humar.  Hann minntist á þetta og þjónninn skottaðist inn í eldhús og kom til baka með disk með einum pínulitlum humarhala.  Þetta var sem sagt 1500 kr humarinnLoL

Við fórum svo snemma að sofa og komum okkur svo í fína morgunmatinn áður en við fórum í reiðtúr um sveitina og eftir úttékk fórum við á dásamlegan stað, Hrunalaug við Flúðir, sem er náttúrulaug lengst út í rassgati og var yndislegt að liggja þar í smátíma áður en við brunuðum í bæinn.

Sem sagt frábær Knipplingaafmælisferð.

 Kv.

Ásta knipplingur

P.S. Hér áttu að vera myndir en tölvan neitar að setja inn myndir sökum plássleysis á diski.


Nei, ég er ekki dáin

Er bara búin að vera að mestu leyti netlaus í þrjár vikur heima og nenni ekki að taka séns á bloggfærslu sem fýkur svo út í veður og vind. Í gær fengum við viðgerðarmann sem horfði á mig og hristi höfuðið yfir hvað ég væri nú vitlaus og sagði mjög hægt:"Sko, sían er á bandvitlausum stað hjá þér, nú vinnur hún bara á móti tengingunni og veldur truflunum."  Sólarhring síðar er nettengingin enn í lamasessiWink

Það hefur auðvitað ansi margt gerst síðan síðast, stóri drengurinn okkar varð árinu eldri og litli hundurinn líka.  Hallgrímur okkar hélt upp á afmælið sitt í Elliðaárdal og það var aldeilis stórskemmtilegt enda hélt hann upp á það með Björgu Steinunni Sóludóttur.

 Skólinn er kominn í fullan gang og fullt af skemmtilegum nemendum eins og endranær og margir alveg sérdeilis líflegir svo ekki sé meira sagt og í fyrsta skipti er ég að kenna nýsjálenskum strák og er það mjög skemmtilegt.

Gormarnir okkar eru að komast í gang í skólanum og íþróttunum, Hallgrímur ætlar að hvíla fótboltann og fara í frjálsar í staðinn sem gleður litlu hlaupamömmuna og Aðalsteinn er nú skráður í dansdeild HK þar sem hann ætlar að svífa tindilfættur um gólfin með Sigrúnu Björk, aðalstúlkunni sinni.

Við erum búin að fara í berjamó og tína rifsber og sulta og frysta og vesenast og Benedikt er búinn að missa niður alla vega þrjú box af berjum þetta árið svo allt er eins og það á að vera.

Steini minn er byrjaður í leiðsöguskólanum og stendur sig eins og hetja og ætlar að bruna með fullt af fólki um fjöll og firnindi næstu misserin.

 Fleira er víst ekki í fréttum en um leið og nettengingin fer að lagast þá fer ég að blogga meira og meira að segja gætu myndskreyttar bloggfærslur birst hér:)

 kv.

Ásta netlausa en alls ekki allslausa.


Fjósó

Alltaf eru Hranastaðir jafnyndislegir.  Komum heim í gærkvöldi eftir náðuga daga í Eyjafirðinum.  Reyndar tókst Hallgrími að handleggsbrjóta sig á föstudaginn en þar fyrir utan gekk ferðin stórslysalaust fyrir sig.  Eða sko, Arnar bóndi datt niður úr stiga á laugardaginn og gat varla gengið fyrir verkjum en að öðru leyti gekk þetta mjög vel;)

Við skoðuðum Smámunasafnið sem var nú ekkert smá heldur rosalegt safn.  Svo átum við yfir okkur af Holtselshnossi í Holtseli en þar eru til 1000 uppskriftir að ís og margir sjúklega góðir.

Á sunnudaginn fórum við á sveitamarkað, í lautarferð og á Greifann og svo í frekar dapurlegt tívolí.

Í gær kíktum við svo á gamla bæinn í Laufási og svo brunuðum við í bæinn.  Sem sagt, tær snilld.

Lítið annað að segja, myndir og meira síðar.


Laugavegurinn 2010, klúbburinn skynsemin ræður:)

Tveimur dögum eftir 5 tinda hlaupið í byrjun júní var hringt í mig og ég beðin að gefa blóð.  Ég hlýði auðvitað alltaf því sem mér er sagt og hjólaði því niður eftir en fór svo að hugsa þegar þangað kom hvort blóðmissir sem ég varð fyrir í vor gæti haft neikvæð áhrif á blóðgjöfina.  Í ljós kom þegar ég fyllti út eyðublaðið að ég mátti ekki gefa en þar sem ég var nú komin á staðinn og einhver þurfti blóðið mitt ákvað ég aðeins að sleppa því að svara einni spurningu á blaðinu og gaf svo blóð. 

Daginn eftir fórum við Sigrún og Vala í minningarhlaup upp í Mosfellsdal og leið mér ágætlega fyrri hluta hlaupsins en gjörsamlega hræðilega eftir það.  Þegar heim kom dróst ég upp tröppurnar, svimaði, var flökurt, gat ekki borðað og var algjörlega máttlaus.  Hallgrímur leit á mig, sagði:"Þú lítur ömurlega út, þú ferð ekki að hlaupa á morgun!"  Ég hlýddi því auðvitað ekki og var eins og drusla á æfingu daginn eftir.  Gullspretturinn var þremur dögum síðar og þar sem okkur vantaði langa æfingu inn í vikuna ákváðum við Agga að taka hana á fimmtudeginum.  Það er skemmst frá því að segja að ég var eins og aumingi á þeirri æfingu og man sjaldan eftir að hafa liðið eins illa, hver einasti hóll varð að Mount Everest, mér var illt í maganum og sviminn varð meiri og meiri.  Þegar heim kom var ég eins og argasta drusla.  Ég fékk svo bréf frá Landspítalanum þar sem stóð að áður en ég gaf hefðu blóðbirgðir verið undir eðlilegum mörkum og járnbirgðir rétt undir helmingi þess sem þær þurfa að vera til að mega gefa.  Ég var því nánast járnlaus þarna.  Nú voru góð ráð dýr.  Ég var búin að vera dugleg að æfa, vantaði að vísu sprettæfingar, en æfingamagn og æfingategundir voru með besta móti.  Ég fór þá að dæla í mig járni og járnríkum matvörum og vonaði að formið sem ég var komin í fyrir hálfvitaganginn myndi fleyta mér eitthvað áfram. 

Næstu tvær vikur eftir þetta leið mér alveg hrikalega illa á hlaupum en fann þó að járnið hafði góð áhrif.  Í Þorvaldsdalnum leið mér bara nokkuð vel og sá þá að ég hlyti að geta hlaupið Laugaveginn þótt það yrði ekki alveg með sömu formerkjum og ég hafði ætlað mér, þ.e. bætingu. Síðasta fimmtudag var ég líka sérlega sniðug því ég rak fótinn í tripp trapp stól Aðalsteins og braut á mér tána.  Mér var því eiginlega hætt að lítast á blikuna en vildi ekki hætta við.

Ég ákvað því að í fyrsta skipti á ævinni myndi Ásta litla vera skynsöm (var það reyndar í Þorvaldsdalnum líka) og hlaupa eftir líðan.

Sagan öll:

Agga sótti mig kl 4:00 í gærmorgun og þá var ég búin að borða beyglu með sultu og drekka sopa af Energy Boost með.  Við fórum svo með rútunni kl. 4:30 og borðuðum svo morgunmat í Hrauneyjum, vorum báðar með sultusamloku og ég fékk mér svo banana og Trópí.  Ég hafði verið mjög passasöm með mataræði daginn áður því með alla mína magaverkjasögu í hlaupum langaði mig svooo mikið að vera með magann í góðu standi. Það var kalt og hvasst í Hrauneyjum en í Landmannalaugum var fínasta veður.  Við bárum á okkur sólarvörn og vaselín og hituðum aðeins upp áður en við komum okkur fyrir í startinu. Ég hafði sett lakari tíma inn sem markmið og fékk því ekki að starta með stelpunum sem var örlítið fúlt en ég vissi að ég hlypi hvort eð er ein allan tímann og var ekkert að svekkja mig á því.  Keli og Gígja voru að vinna við hlaupið og það var gott að fá knús frá Kela áður en ég lagði af stað og annan frá Ingu Dagmar sem var á hlaupum í kringum hlauparana.

090

Með grímuna sem við fengum vegna öskufallsins.  Við Agga vorum í kasti yfir þessu.  Fólk hafði meira að segja keypt sér sundgleraugu til að verja augun en við gátum ómögulega séð fólk hlaupa 53 km svona.

096

Team Vala með Völu í fararbroddi, tilbúnar að leggja í hann.

091

Baldur og Einar að bera hvor á annan.  Þeir höfðu það á orði að það væri miklu betra að bera á karlmenn, svo loðið og mjúkt.

094

Svava Rán og Lady Sigrún ready to go.

Jæja, flautað var til leiks og við hlupum af stað.  Bibba kallaði hvatningarorð ofan úr hrauninu, galaði "það er lítið eftir", á alla sem komu fram hjá (vorum búin með ca 100 m) og ég hló að þessu alveg gegnum hraunið.

Ég ákvað að taka kaflann að Álftavatni mjög skynsamlega svo ég lenti ekki í magaveseni eins og síðast á söndunum, eða þróttleysi og tásuverkjum.  Það var erfitt að hemja sig upp að Hrafntinnuskeri því ég fann að ég hafði næga orku og átti erfitt með að fara ekki að sperra mig ef einhver fór fram úr.  Það tókst og ég kom að Hrafntinnuskeri á 1:20 sem er ca 5 mínútum lakari tími en síðast sem var fínt.  Ég fékk mér banana og vatn á drykkjarstöðinni og hélt svo áfram.  Í hólunum eftir Hrafntinnusker fór ég að fá mikla verki í tána auk verkja í hnénu sem hafa verið að trufla mig í vor.  Táin var ekki alveg að samþykkja svona hæðarbreytingar enda mikið álag á hana bæði upp og niður brekkurnar.  Verkurinn náði undir alla ilina en mér var alveg sama því maginn var í lagi og þá var allt í lagi.

Þegar ég var að koma að Álftavatni leið mér enn mjög vel í maganum en fann þó að sniðugt væri kannski að skreppa á klósettið þar.  Á veginum að Álftavatni fann ég að járnleysið og æfingaleysið síðasta mánuðinn hafði þau áhrif að ég fór hægt yfir, var á tempói rétt undir 6:00 en lét það ekkert á mig fá.  Ég fékk mér svo tvo banana við Álftavatn og vatnsglas og dreif mig á klósettið og þurfti að bíða heillengi eftir að komast að svo ég komst ekki aftur af stað frá Álftavatni fyrr en tíminn sagði 2:49 en það varð bara að hafa það.

Við Bláfjallakvísl náði ég í MP3 spilarann, fékk mér bita af hnetustykki (Solla Eiríks), drakk eins og vitlaus manneskja, bar á mig sólarvörn, henti af mér Team Vala treyjunni og dreif mig af stað.  Á söndunum leið mér alveg ótrúlega vel í maganum og var það skemmtileg tilbreyting.  Ég var þó með mikla verki í tánni og undir ilinni út frá því og í hnénu og ákvað því að taka sénsinn og fá mér íbúfentöfluna sem ég var með.  Ég vissi að þetta var áhætta því maginn gæti farið í klessu en mér hafði liðið svo vel að ég hætti á það.  Það borgaði sig, verkirnir minnkuðu og mér leið vel.  Ég var á 5:00 tempói á tímabili og söng hástöfum með mínum háþróaða lagalista sem samanstóð af Disneylögum, Latabæ, Bon Jovi, Á móti sól, Hemma Gunn og ýmsu öðru dásamlega skemmtilegu. Við Hattfell hljóp ég fram á Kára og söng fyrir hann en uppskar ekki mikið þakklæti. Þegar kom að brekkunni niður að Emstrum komst ég í þvílíkt stuð að hlusta á "Einn dans við mig" með Hemma að ég flaug niður að skálanum, framhjá haug af fólki. Þarna var tíminn hjá mér 4:30 svo ég vissi að ef ég héldi vel á spilunum gæti ég bætt tímann en enn var langt eftir.

Ég passaði að drekka vel enda skein sólin eins og henni væri borgað fyrir það og ég vildi ekki lenda í krömpum. Við Emstrur fékk ég mér aftur banana, lítinn bita af mars og vatn og hélt svo áfram.  Alltaf þegar ég fann að orkuleysi var farið að segja aðeins til sín, fékk ég mér bita af hnetustykkinu og Energy Boost.

Síðasta kaflann að Kápunni fór ég mjög hægt og þarna held ég að járn og æfingaleysi hafi sagt verulega til sín og eftir að hafa verið samferða stelpu sem hét Sigrún frá Emstrum varð ég að segja skilið við hana og fara aðeins hægar. Þarna var alveg himnasending að sjá Lísu sem kallaði til manns hvatningarorð og stuttu seinna Börk sem ég bara varð að knúsaSmile  Ég kláraði úr öllum brúsunum mínum á no time og var orðin alveg orkulaus við Ljósá.  Þar var bara til hvítt powerade sem ég get ekki drukkið svo í staðinn fékk ég flatt kók og lítinn marsbita.   Það var dásamlegt að sjá Þröngána og niðurleiðin að henni var ótrúlega auðveld og það lítur út fyrir að henni hafi verið breytt eitthvað síðan síðast.  Þarna fór ég að fara fram úr ansi mörgum sem voru stopp vegna krampa og gaf ég þeim magnesíumtöflurnar mínar.  Ég var líka mikið í ruslaupptíningum alla leið því skipuleggjendur hlaupsins höfðu lagt mikla áherslu á að enginn skildi eftir rusl og tók ég því á mig að taka upp gelbréf og ýmislegt annað sem fólk hafði misstWink 

Eftir Þröngána var eftirleikurinn auðveldur því maður er eins og hestarnir sem eygja leiðina heim og er orðinn svo ánægður að vera loks að komast á leiðarenda að það gefur manni aukaboost upp brekkurnar. 

Ég kom því í mark á 6:53 sem er 14 mínútum lakari tími en ég átti en ég verð að segja að það var þess virði.  Mér leið ótrúlega vel í maganum alla leið og ég held ég sé búin að finna út lausn á magavandanum, fyrst ég get ekki tekið gel er bara lykillinn að láta orkuna aldrei þverra.

Það var yndislegt að hendast í fangið á Gígju sem stóð í markinu og fá svo elsku Jóhönnu til að hugsa um mann í tjaldinu enda höfðum við Agga einmitt saknað þess mikið að hafa ekki Ívar og Jóhönnu og fullt af öðrum Laugaskokkurum í hlaupinu.

Stelpurnar stóðu sig auðvitað fáránlega vel og bættu sig allar.  Vala bætti Íslandsmetið og sjálfa sig um 5 mínútur, var á 5:28 sem er auðvitað ómennskur tími, en náði ekki að sigra þar sem Helen Ólafs náði í mark á 5:21 og það er ekki einu sinni hægt að vera pirraður við hana því hún er svo yndisleg þótt maður haldi nú alltaf með sínu liðiSmile

Agga bætti sig um rúmar 20 mínútur, var á 5:53 og fjórða kona í mark.  Sigrún bætti sig um ca klukkutíma og kom á 6:09 í mark sem er alveg fáránleg bæting!

Laugaskokkarar og Árbæjarskokkarar stóðu sig yfirleitt rosalega vel en margir keppendur lentu í miklu magaveseni og alls kyns krömpum, mikið til út af hitanum og sólinni og aldrei hafa jafnmargir hætt á Laugaveginum áður. 

Mér leið svo vel að eftir sturtu var ég bara orðin svöng og át grillmatinn hans Kela með bestu lyst á meðan aðrar Glennur voru ekki alveg eins lystugar og sumar hafi skilið matarleifar eftir um allar jarðir á heimleiðinniLoL

097

Team Vala og Vala eða öllu heldur Glennurnar án Sólu. Frekar greinilegt að ég kom á eftir þeim í mark enda frekar litlaus í framan enn.

104

Efstu sætin hjá konunum, Sif Jóns í 3. sæti, Helen Ólafs í 1. sæti og Vala í 2. sæti.

105

Horft yfir Eyjafjallajökul frá Húsadal, rosalegt öskuský yfir sem náði þó ekki inn í Húsadalinn svo við fundum í raun aldrei fyrir neinu.

Agga fór svo úr rútunni á Hvolsvelli og restina af leiðinni sat ég og kjaftaði við Geir úr Valur skokk sem var að hlaupa sinn fyrsta Laugaveg og stóð sig svakalega vel, var rétt á undan Sigrúnu í mark. 

Þetta var gjörsamlega stórkostlegt hlaup og hlakka ég til þess næsta og ætla að gera það nákvæmlega eins en vonast til að vera þá full af járni og óbrotin og geta þá bætt tímann minn. Það sem upp úr stendur er því góð líðan, frábær árangur fólksins í kringum mig og síðast en ekki síst gífurlegt þakklæti til þeirra sem hjálpuðu manni fyrir og eftir hlaup og á meðan því stóð, það er ómetanlegt að hafa svona gott fólk í kringum þetta.

Kv.

Ásta Laugó


N1, Nikulás og Laugavegur

Jæja, mikil ferðalög að baki og nóg um að vera, aldrei þessu vantSmile

Hallgrímur keppti á N1 mótinu á Akureyri fyrir rúmri viku og stóð sig mjög vel þótt liðinu hans hafi ekki gengið nógu vel, með eindæmum óheppnir þetta árið, en það koma mót eftir þetta mót. En Akureyrin var fín og frábært að fá gistingu hjá Sverri frænda Steina en hann ákvað að hýsa okkur öll, þ.e. okkur fimm og sumarfjölskylduna okkar, Barða, Hófí og strákana þeirra, auk tveggja hunda, alveg hreint ótrúleg gestrisni hjá þessu fólki.  Þetta var því rosalega notalegt og skemmtilegt þótt HK hefði ekki gengið alveg nógu vel.

Við ákváðum svo að drífa okkur til Ólafsfjarðar með eitt lið úr HK á Nikulásarmótið.  Þetta var nú bara gert af því tveir vinir Benedikts voru á Ólafsfirði á þeim tíma og það þótti ótækt að þeir kepptu með LeiftriWink svo liði Benedikts var bara skellt inn í bíl og keyrt norður þótt HK hefði aldrei keppt á þessu móti.

Við fengum lánað húsið hennar Völu Glennu og það var nú aldeilis dásamlegt að vera með strákana alla í sveitasælunni, tvær mömmur og 7 strákar miðja vegu milli fjallstinds og vatnsins. Ég er þvílíkt orðin ástfangin af þessum stað með fjöllin allt í kring og vatnið í miðjunni.  Ekki skemmdi fyrir að húsráðendur komu eitt kvöldið færandi hendi, með spriklandi bleikjur úr vatninu.  Héðan í frá verð ég því fastagestur á Ólafsfirði.

Það leit nú ekki vel út með veðrið því það rigndi eldi og brennisteini þegar við komum þangað en svo lagaðist það og alla helgina var ágætisveður, þurrt en fremur kalt. Jóna og Hörður, foreldrar Andra Más voru líka með íbúð alveg við fótboltavöllinn og þar var hægt að fara í borðtennis og pool svo strákunum varð aldrei kalt og ekki leiddist þeim.

Strákarnir gerðu sér svo lítið fyrir og unnu mótið, urðu Nikulásmeistarar auk þess sem þeir fengu háttvísi og prúðmennskuskjöld eftir fagran söng í mötuneyti alla daga og prúða framkomu í öllum leikjum.

Nú er það Laugavegsvikan, ég er alveg sérstaklega lítið undirbúin núna, enda kom leiðindabakslag í æfingaprógrammið þegar ég lenti í járnskortinum fyrir mánuði og eftir það hef ég bara verið að lufsast eitthvað milli þess sem ég hef hámað í mig járntöflur, cheerios, rúsínur og suðusúkkulaði eins og mér sé borgað fyrir það.  Ég sé því kannski ekki fram á bætingu þetta árið en vona að ég komist klakklaust í mark og helst án mikilla magaverkja og leiðinda. 

En nú var ég að fá sendan heim heilan kassa af Leppinvörum og tvær kippur af Soccerade (gott að eiga gjafabréf einhvers staðar) svo nú er best að fara að demba þessu í sig og fylla sig orku.

Kv.

Ásta HK 

 


Næsta síða »

Höfundur

Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir
Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir
Þriggja barna móðir, eiginkona, hundaeigandi og hlaupari sem finnst lífið skemmtilegt og gott.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 15402

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband